31 October 2006

Viðmót - nytsemi - usability

Uppfærði tenglalistann á vefsíðunni minni á meðan að nemendur hömuðust við verkefnin á usability námskeiðinu hjá Terttu í dag. Fannst hann ótrúlega stuttur - listinn - miðað við að ég skrifaði MA ritgerðina mína um þessi mál. Kannski ég rífi mig upp og bæti enn meira við hann.

Það er t.d. alveg nauðsynlegt að kíkja á Usability.gov - your guide for developing usable & useful Web sites - Þar er svo til allt sem þú þarft að vita!

30 October 2006

World Usability Day 2006

Þann 14. nóvember verður í annað sinn haldið uppá World Usability Day - Alþjóðlega nytsemisdaginn (hmm....)
Sjá ehf., Öryrkjabandalagið og forsætisráðuneytið standa fyrir ráðstefnu í tilefni dagsins sem nefnist: Aðgengi á Netinu: hvar erum við stödd? Vakningin sem orðið hefur síðan skýrslan Hvað er spunnið í opinbera vefi kom út síðastliðið haust er þvílíkt frábær.
Ef þú kemst ekki á ráðstefnuna en langar að fylgjast með því sem gerist úti í heimi þennan dag getur þú fylgst með webcasts í staðinn.

26 October 2006

Orðasafn í bókasafns- og upplýsingafræði

Nemendur mínir í Internetinu í bókasafns- og upplýsingafræði hafa rætt um hversu mjög skortir gott og nýtt orðasafn í fræðinni. Þau dóu ekki ráðalaus og drifu tveir nemendanna í því að stofna orðasafn á Wikibooks og er ég að rifna úr monti yfir þessu framtaki þeirra. Nú þegar er tengill á orðasafnið á vef Landsbókasafns.

Á vegum Félags um skjalastjórn er starfandi orðanefnd sem vinnur að gerð orðasafns fyrir skjalastjórn. Gamalt orðasafn er til á Íslenskri málstöð og mun það verða uppfært. Þar er líka orðasafn í bókasafns- og upplýsingafræði en hefur enginn tekið það uppá sína arma til uppfærslu. Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða væri kjörinn aðili til að annast þetta orðasafn.

20 October 2006

Blogg - topp tíu mistök í viðmóti - seinni fimm

Jakob Nielsen telur það galla ef (6) skipulag bloggsins er eingöngu falið í dagatalinu. Hann leggur áherslu á að bloggarar lykli bloggin sín. Ég er nýbyrjuð á því að velja "labels" hér á Blogger. Man ekki hvort það var í venjulegu Blogger útgáfunni - er með Google aðganginn núna.

(7) Heppilegast er að blogga reglulega svo lesendur þínir viti hvenær þeir megi búast við næstu færslu. Daglegar færslur eru bestar en auðvitað hafa ekki allir tíma eða hreinlega nógu margt spennandi að segja til að geta ritað svo oft. Svo eru aðrir sem blogga oft á dag - eins og Phil Bradley.

(8) Haltu þig við eitt umræðuefni. Hugsaðu um markhópinn þinn og haltu þig við efnið. Þá eru meiri líkur á að þú haldir í lesendahópinn þinn. "Specialized sites rule the Web" segir Jakob Nielsen.

(9) Ekki gleyma því að allir geta lesið bloggið þitt, þar á meðal framtíðar yfirmaður þinn - eða núverandi yfirmaður þinn. Er það sem þú skrifar hæft til birtingar fyrir alþjóð? Ef ekki ættir þú kannski að loka blogginu þínu og veita fáum útvöldum aðgang.

Og loks er það regla sem ég verð að viðurkenna að ég brýt en það er (10) að hafa vefslóð sem tilheyrir þjónustuaðila bloggsins - blogspot dæmið. Ég hef verið að íhuga að kaupa mér eigið lén - þá er það spurningin hverjum er treystandi og hvaða heiti á vefslóðina er nógu grípandi til þess að fólk muni það. kristinosk.net - veit ekki.

15 October 2006

Blogg - topp tíu mistök í viðmóti

Jakob Nielsen hefur uppfært lista sinn yfir topp tíu mistök í vefsíðugerð. Í fyrra birti hann lista yfir topp tíu mistökin í viðmóti blogga. Ég ákvað að lesa yfir listann og sjá hvort ég væri að gera eitthvað af þessum mistökum. Tek þessi fyrstu fimm í þessari lotu.

Jú, strax fyrstu tvö á listanum eiga við mig: (1) engar upplýsingar um höfundinn og (2) engin mynd af höfundi. Ég er reyndar varla komin "út úr skápnum" með þetta blogg enn en það er kominn tími á þetta. Það er rétt að það er nauðsynlegt að geta sannreint hvaða snillingur þetta er sem er að tjá sig. Hefur hann reynslu, þekkingu?

Ég reyni eftir mætti að uppfylla skilyrði (3) og hafa titlana lýsandi á færslunum. Það skiptir miklu máli sérstaklega varðandi sendingu færsla í efnisveitur síðar meir. Þú velur hvort þú vilt lesa meira eftir titli færslu og fyrstu línunum sem þú sérð. Þessi týpíska lestrarhefð á vefnum.

Svo er það (4) hvort heiti tengla sé lýsandi? Jú það held ég nú. Title merkið (tag) í kóða fyrir tengil (A hre...) getur komið að miklu gagni - svo maður tali nú ekki um fyrir skjálesarana.

(5) Ef það falla einhver gullkorn má ekki gleyma að tengja í þau. Taka þau til hliðar og merkja sérstaklega. Já, hvað veit maður nema maður segi eitthvað merkilegt :o)

11 October 2006

Skólasöfnin blogga

Afmælisnefnd skorar í bókasafns- og upplýsingafræði við HÍ setti saman röð hádegisfyrirlestra og í dag var annar í röðinni haldinn í Þjóðarbókhlöðu. Þar sögðu tveir frábærir skólasafnskennarar frá reynslu sinni, þær Ingibjörg í Flataskóla (gamla skólanum mínum) og Kópavogsskóla (skólanum sem dætur mínar eru í) (tilviljun - já algjör!).

Anna Björg í Kópavogsskóla er að ljúka MLIS námi og sagði frá rannsókn sem hún hefur unnið á viðhorfi skólasafnskennara og bekkjakennara til skólasafnsins. Þar virðist viðhorfið stundum vera að skólasafnskennarinn (sem er "þreyttur bekkjakennari") eigi að kenna börnunum góða hegðun! Ekki er nú öll vitleysan eins. Ingibjörg í Flataskóla sagði frá frábæru lestarmaraþoni þar sem sjöundi bekkur fékk að gista á skólasafninu og lesa með vasaljós fram á nótt.

Skólasafnskennarar leggja grunn að upplýsingalæsi barnanna okkar og tek ég ofan fyrir þeim.

Á fundinum heyrði ég í fyrsta sinn af bloggsíðu skólasafna en það er bloggsíðan Skólabókasafnið. Þessari bloggsíðu er haldið úti af starfsmönnum 12 skólasafna í austurborginni. Frábært framtak þar. Og þær vísa yfir á bloggsíðu Húsaskóla sem er líka alveg frábær. Öflug blogg sem eru títt uppfærð.