Afmælisnefnd skorar í bókasafns- og upplýsingafræði við HÍ setti saman röð hádegisfyrirlestra og í dag var annar í röðinni haldinn í Þjóðarbókhlöðu. Þar sögðu tveir frábærir skólasafnskennarar frá reynslu sinni, þær Ingibjörg í Flataskóla (gamla skólanum mínum) og Kópavogsskóla (skólanum sem dætur mínar eru í) (tilviljun - já algjör!).
Anna Björg í Kópavogsskóla er að ljúka MLIS námi og sagði frá rannsókn sem hún hefur unnið á viðhorfi skólasafnskennara og bekkjakennara til skólasafnsins. Þar virðist viðhorfið stundum vera að skólasafnskennarinn (sem er "þreyttur bekkjakennari") eigi að kenna börnunum góða hegðun! Ekki er nú öll vitleysan eins. Ingibjörg í Flataskóla sagði frá frábæru lestarmaraþoni þar sem sjöundi bekkur fékk að gista á skólasafninu og lesa með vasaljós fram á nótt.
Skólasafnskennarar leggja grunn að upplýsingalæsi barnanna okkar og tek ég ofan fyrir þeim.
Á fundinum heyrði ég í fyrsta sinn af bloggsíðu skólasafna en það er bloggsíðan Skólabókasafnið. Þessari bloggsíðu er haldið úti af starfsmönnum 12 skólasafna í austurborginni. Frábært framtak þar. Og þær vísa yfir á bloggsíðu Húsaskóla sem er líka alveg frábær. Öflug blogg sem eru títt uppfærð.
No comments:
Post a Comment